Sameindaerfðarfræði

Um miðja síðustu öld kom í ljós að efni genanna er kjarnasýra. Í frumum allra lífvera eru tvær gerðir þ.e. kjarnasýran DNA, sem er erfðaefnið og geymir upplýsingar um uppröðun amínósýrueininga í prótínum lífvera og kjarnasýran RNA sem sér um flutning upplýsinga frá genunum til netkornanna sem sjá um uppröðun amínósýra í prótín. Í dag er hægt að greina röð byggingareininganna í genunum - kirni - og þar með sjá uppröðun á amínósýrueiningum í prótínum. Þetta gerir kleift að bera saman amínósýruröðina og skoða innbyrðis skyldleika milli tegunda. Eftir því sem munurinn á röðinni er minni er styttra í sameiginlegan forföður. Einnig er hægt að bera saman skyldar tegundir og skoða nokkur gen og sjá hve mörg eru hin sömu, t.d. hefur komið í ljós að munurinn á genum simpansa og manna er minni en 2%.