Lífjarðlagafræði

Víða í setlögum hafa varðveist steingerðar leifar dýra og plantna. Aðeins lítill hluti þeirra lífvera sem lifað hafa á jörðinni varðveitast sem steingervingar. Algengast er að leifar sjávardýra og þá einkum harðir líkamshlutar þeirra verði að steingervingum þegar dýrið deyr og leifarnar kaffærast í seti áður en þær ná að rotna eða eyðast.


Enskur verkfræðingur, William Smith að nafni, sem vann við kolanám og gerð skipaskurða í heimalandi sínu í lok 18. aldar, tók eftir því að setlögin greindust í syrpur eða lotur sem hver hafði sín einkenni. Hann þekkti ekkert til þróunarkenningar Darwins enda birtist hún ekki fyrr en nokkrum áratugum seinna. Eigi að síður tók Smith eftir því að í hverri setlagasyrpu fundust vissir steingervingar og enn aðrir í næstu syrpu og þannig koll af kolli (framvinda steingervinga). Hann mældi og kortlagði setlög víðs vegar í Suður-Englandi sem mörg hver höfðu hnikast til og jafnvel umturnast á 270 Má myndunartíma. Þótt jarðlagasniðin væru sundurlaus og slitrótt tókst honum með aðstoð einkennissteingervinga að draga upp heildarsnið fyrir öll jarðlögin. Með einkennissteingervingum er átt við þá steingervinga dýrategunda sem höfðu mikla útbreiðslu en lifðu skamman tíma jarðsögulega séð og er því aðeins að finna í setlagasyrpu eða setlagaeiningu frá þeim afmarkaða tíma. Segja má að á síðari hluta 19. aldar hafi afstæða jarðsögutaflan veri komin í núverandi horf. ◊.


Jarðsögutaflan er að miklu leyti byggð á dreifingu steingervinga í jarðlögum og hin afstæða tímatafla jarðsögunnar varð að mestu fullmótuð upp úr miðri 19. öld. Þó er alltaf annað slagið verið að breyta aldurstölum, sem fengnar eru með efnafræðilegum greiningum, og enn í dag eru t.d. deilur milli setlagafræðinga og steingervingafræðinga um mörkin á milli krítar og tertíers annars vegar og tertíer og kvarter hins vegar.


Þegar setlagasnið (eða setlagaeiningar) mismunandi svæða eru borin saman kemur oft í ljós að sum þeirra eru heilleg og órofin en önnur sem tekin eru af setlögum skammt frá eru slitrótt og auðsjáanlega með eyðum. Þau geta til dæmis verið eins og sýnt er á mynd.


Þetta kallast mislægi og þó þau eigi sér ýmsar orsakir er þeim það sameiginlegt að þau eru vísbending um eyður í jarðsögu svæðisins. Oft kemur fram hallamunur eldri og yngri jarðlaga þar sem um mislægi er að ræða. Dæmi um mislægi.


Mislægi gefur til kynna að upphleðsla jarðlaga hafi ekki gerst jafnt og þétt og án truflana og að eyður séu í setlagaannálnum. Oft má geta sér þess til að setlög frá stuttum tíma vanti í setlagastaflann en í öðrum tilfellum er greinilegt að jarðlög frá löngum tíma vantar.