Lífið í aldanna rás

Sú staðreynda að líf á jörðu hafi verið til staðar í amk. 3500 Má er mjög merkileg og ekki er það síður hin mikla fjölbreytni lífvera á jörðinni sem vekur sífellt athygli og undrun. Þessi fjölbreytni stafar af þróun sem hefur verið í gangi frá upphafi vega samfara ýmsum breytingum á útliti og gerð jarðarinnar, svo sem hreyfingum jarðskorpunnar eða myndun andrúmslofts svo lítið eitt sé nefnt. Þó að tegundafjöldi lífvera í dag sé mjög fjölbreyttur er mikill hluti þeirra lífvera sem til hafa verið horfinn. Stafar það af breyttum aðstæðum sem hefur valdið útdauða þeirra eða þróun í átt til nýrra tegunda. Steingervingafræði er sú fræðigrein sem fæst við rannsóknir á leifum þessara lífvera — steingervingum — frá fyrri jarðsöguskeiðum sem finnast víða í jarðlögum. Allgóð mynd af sögu lífsins og jarðar hefur fengist með því að tengja steingervinga og önnur ummerki eftir lífverur við gerð og staðsetningu jarðlaga. Til að mynda er talsvert mikið vitað um þá hópa sem nú eru útdauðir og einnig hvenær helstu hópar núlifandi lífvera komu fram á sjónarsviðið. Að auki er hægt að sjá hvernig nýjar tegundir hafa myndast og lífverur aðlagast ólíkum aðstæðum.