Áhugi mannsins á stjörnum himinsins nær aftur til forsögulegs tíma. Forfeður okkar tóku eftir því að sumar stjarnanna hreyfðust á meðan aðrar sýndust kyrrar. Grikkir kortlögðu brautir þessara stjarna og kölluðu þær reikistjörnur [planetai] eða flakkara og Rómverjar nefndu þessar stjörnur eftir guðum sínum: Merkúr, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus.


Forngrikkir álitu að áðurnefndar fimm reikistjörnur ásamt tungli og sólu snerust um jörðu eins og fram kemur í kenningum gríska heimspekingsins og náttúrufræðingsins Aristótelesar sem uppi var 384-322 f.Kr. Sú altæka heimsmynd, sem hann setti fram, átti eftir að njóta hylli og móta hugmyndir manna allt fram til siðaskipta og breytti þar litlu um þótt grískur stærðfræðingur, Aristarkos frá Samos, kæmi fram með sólmiðjukenningu þegar um 270 f.Kr. en það var svo ekki fyrr en með sólmiðjukenningu Kópernikusar (1473-1543) að jörðin var talin til reikistjarnanna fimm.


Við vitum nú að ferð þessara stjarna um himingeiminn stafar af hringferð þeirra um sólu eftir sporlaga brautum og að aðrar stjörnur, sem sjást, eru sólir svo fjarri að þær sýnast fastar á himinhvelfingunni. Forfeður okkar þekktu ekki ystu reikistjörnurnar Úranus, Neptúnus og Plútó því þær eru aðeins sjáanlegar í sjónaukum. Úranus fannst 1781 og þó að útreikningar sýndu fram á tilvist tveggja þeirra ystu fundust þær ekki fyrr en síðar, Neptúnus 1846 og Plútó 1930. Í ljós hafa komið truflanir á brautargöngu Úranusar og Neptúnusar og því er ekki ólíklegt að fleiri plánetur leynist í útjaðri sólkerfisins, langt utan við braut Plútós.


Spurningin um sköpun jarðar og alheimsins hefur eflaust fylgt manninum frá upphafi vega. Fyrstu hugmyndir manna voru einkum trúarlegs og heimspekilegs eðlis en smátt og smátt jókst þekkingin og skoðanir manna breyttust og tóku á sig nýjar myndir. Aldrei hefur þessi breyting verið hraðari en nú á okkar tímum þegar hvers kyns nýjar upplýsingar berast okkur svo hratt að tími gefst varla til að vinna úr þeim. Okkur tekst að vísu að leysa hverja gátuna af annarri en þá ber svo við að svar við einni þeirra vekur oftast aðrar nýjar spurningar sem bíða svars. Eftir að fyrsta gervitunglinu var skotið á braut 1957 urðu miklar framfarir í þeim fræðum sem lúta að gerð og efnasamsetningu reikistjarnanna og síðan hefur safnast saman mikil þekking um bernsku jarðar fyrir meira en 3,8 milljörðum ára.


Kenningar um uppruna sólkerfisins eru margar og virðast sundurleitar en allar gera þær ráð fyrir því að geimþoka dragist saman og myndi sól. Kenningarnar greinir hins vegar á um myndun reikistjarnanna. Hvað það varðar má skipta þeim í þrjá flokka. Kenningar í fyrsta flokki gera ráð fyrir því að sólin sé fullmynduð, en síðan losni plánetuefnið frá henni þegar önnur stjarna fer mjög nálægt eða rekst á hana. Í öðrum flokki er sólin einnig fullmynduð, og á ferð sinni um Vetrarbrautina dregur hún til sín efni úr geimskýjum, einu eða fleirum, og þetta efni þéttist síðan í pláneturnar. Í þriðja flokki eru kenningar sem reikna með því, að sólin og pláneturnar hafi myndast svo til samtímis úr sömu geimþokunni.


Hver svo sem atburðarásin hefur verið fyrir um 4,6 milljörðum ára þegar pláneturnar tóku að myndast er rétt að veita vissum staðreyndum athygli.


1 Reikistjörnurnar snúast allar í sömu átt um sólu eftir hringlaga sporbaugum, en það er í sömu átt og sólin snýst um sjálfa sig. Brautir þeirra allra nema Plútós liggja í líkum fleti en brautarflötur hans hallast um 17° miðað við brautarflöt jarðar.
2 Allar pláneturnar að Venusi og Úranusi undanskildum snúast rangsælis um möndul sinn eins og jörðin.
3 Fjarlægð sérhverrar plánetu frá sólu er um það bil tvöföld miðað við næstu plánetu fyrir innan, svokölluð Titus-Bode regla.
4 Langmestur hluti massa kerfisins eða um 99% er í sólinni en snúningsvægi þess er að mestu bundið í plánetunum.
5 Pláneturnar mynda tvo flokka, annars vegar innri plánetur og hins vegar ytri plánetur. Innri pláneturnar Merkúr, Venus, Jörð og Mars eru oft nefndar jarðnesku pláneturnar því þær eru að mestu úr föstu bergi, litlar og eðlisþungar (4 - 4,5). Ytri reikistjörnurnar, gashnettirnir Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus eru aðallega úr lofttegundum. Plútó fellur ekki inn í þessa skiptingu. Gashnettirnir líkjast því sólinni fremur en jarðnesku plánetunum.
6 Aldur sólkerfisins er um 4,6 milljarðar ára. Gera má ráð fyrir að jarðstjörnurnar séu aðallega (90%) gerðar úr fjórum frumefnum: járni, súrefni, kísli og magnesíni. Litrófsmælingar á sólarljósinu sýna að hún er nær eingöngu (99%) gerð úr vetni og helíni og mikill hluti gashnattanna er sömuleiðis vetni og helín.