Raunaldur og geislunarmælingar

Spurningin um aldur berglaga hefur verið mönnum hugleikin a.m.k. síðastliðin 2500 ár. Eftir því sem best er vitað var það Xenofanes frá Colofon (570-470 f.Kr.) sem fyrstur gerði sér grein fyrir því að steingervingar sjávardýra sem hann sá í berglögum væru til vitnis um dýr sem hefðu lifað endur fyrir löngu og að berglögin hefðu myndast á sjávarbotni. Gríski sagnfræðingurinn Heródótus, sem talið er að ferðast hafi um óshólma Nílar (450 f.Kr.), ◊. gerði sér sömuleiðis grein fyrir því að óshólmarnir hefðu myndast í mörgum flóðum árinnar. Ennfremur er talið að hann hafi fyrstur notað orðið delta yfir óshólma vegna þess hve lögun óshólma Nílar líkist gríska bókstafnum delta, Δ.


Aristóteles og síðar aðrir grískir og rómverskir heimspekingar héldu svo þessari röksemdafærslu áfram og hélst svo til miðalda. Þá risu bókstafstrúarmenn kirkjunnar upp gegn vísindaiðkunum endurreisnarinnar og töldu sig finna öll svör í sköpunarsögu fyrstu Mósebókar. Athuganir Kópernikusar, Galíleós og Newtons gáfu þó vísindunum byr undir báða vængi og sífellt nýjar tilgátur um aldur jarðar komu fram. Eðlisfræðingar, þar á meðal Kelvin lávarður (1824 - 1907), reiknuðu aldur jarðar út frá lögmálum varmafræðinnar og komust að þeirri niðurstöðu árið 1899 að hún væri 30 milljón ára gömul.


Skömmu fyrir aldamótin síðustu (1895) gerðust atburðir í sögu vísindanna sem áttu eftir að gerbreyta hugmyndum manna um aldur jarðar. Þá uppgötvaði franskur eðlisfræðingur, Henri Becquerel, geislavirkni úrans einmitt á svipuðum tíma og Wilhelm Röntgen uppgötvaði röntgengeislana og skömmu síðar tókst Marie Curie að einangra geislavirka frumefnið radín. Það var svo ekki fyrr en Ernst Rutherford, sem einnig hafði lagt stund á þessi fræði, sýndi fram á að geislavirk frumefni mætti nota til að aldursgreina berg. Í fyrstu voru mælingarnar afar ónákvæmar en þegar menn höfðu sýnt fram á að frumefni áttu sér mismunandi samsætur og þeim hafði tekist að skýra eðli þeirra jókst nákvæmnin hröðum skrefum. Fljótlega kom í ljós að aldur jarðar mældist ekki nokkrir tugir ármilljóna heldur reyndist hann vera nokkrir milljarðar.