Jarðfræðilegt tímatal

Elsta berg sem finnst á jörðinni er talið um 3.800 Má og er einmitt að finna í gömlum kjörnum meginlandsskorpu og hefur það myndast við samkýtingu fornra löngu horfinna fjallgarða.


Ávallt þegar reynt er að útskýra myndun og orsakir ýmissa fyrirbæra sem jarðfræðin fæst við kemur vel í ljós hversu tímahugtakið er samofið jarðfræðinni. Líf mannsins er hins vegar svo stutt að fáir jarðsögulegir viðburðir gerast á einni mannsævi. Við verðum því að leita til heimilda þegar rekja skal sögu liðinna atburða. ◊.


Margir kunna t.d. að segja frá Vestmannaeyjagosinu og ennfremur er rækilega sagt frá því á prenti, í máli og myndum. Við getum ennfremur leitað í ritaðar heimildir til að fræðast um Skaftárelda, en viljum við fræðast um forsöguleg gos Heklu eða aldur gamalla berglaga verðum við að beita öðrum aðferðum.


Berglög í vestfirskum og austfirskum fjöllum birtast okkur sem hamrabelti þar sem hvert hraunlagið leggst ofan á það sem eldra er. Það getur því reynst erfitt að segja til um hversu gömul þessi hraunlög eru en það reynist okkur hins vegar auðvelt að skilja að yngra hraunlagið liggur yfirleitt ofan á því eldra. Þetta byggir á tveimur mikilvægum tilgátum jarðfræðinnar. Sú fyrri sem kennd er við Danann Nikulás Stenó og sem uppi var á 17. öld tekur til myndunar hraun- og setlaga og segir að efra lagið í berglagastafla sem ekki hefur umturnast sé ávallt yngra en það sem undir liggur. Síðari tilgátan segir að nútíminn sé lykill að fortíðinni og gerir hún ráð fyrir því að þau náttúrulögmál sem við nú þekkjum hafi ávallt verið að verki.


Þegar meta skal aldur jarðlaga er það einkum gert með tvennum hætti. Annars vegar er reynt að bera saman aldur jarðlaga og tengja jarðmyndanirnar saman í tíma þannig að afstæður aldur (relatívur aldur) þeirra fáist. Hins vegar er oft hægt að mæla aldur jarðlaga út frá leifum geislavirkra efna í jarðlagi. Upphaflegt magn þessara efna er þá þekkt og einnig tíminn sem það tekur þau að eyðast. Aldur sem fæst úr slíkri mælingu er kallaður raunaldur (absólút) aldur.


Líkt og fræðimenn sem rannsaka fornminjar til að varpa ljósi á leyndardóma löngu liðinna menningarsamfélaga stunda jarðfræðingar líka eins konar sagnfræði. Jarðsagan spannar hins vegar ólíkt lengri tíma en saga mannsins og verður best lesin úr minjum sem þykkir jarðlagastaflar hafa að geyma. Sagnfræðilegar heimildir jarðfræðinga er einkum að finna í setlögum sem að stærstum hluta eru mynduð á sjávarbotni og eru einnig útbreiddust sýnilegra jarðlaga eða um 2/3 af þeim. Þetta má þó ekki skilja svo að tekist hafi að skrá jarðsöguna óslitið frá upphafi vega heldur er nær að líkja þessu við 5000 hluta púsluspil þar sem meira en helmingur hlutanna er týndur og fyrirmyndina vantar. Það kemur því í hlut setlagafræðinnar að raða því saman sem finnst og geta síðan í eyðurnar út frá líkum.