Setmyndun vatnsfalla

Dragár sem falla fram úr þröngum dölum og giljum mynda oft stórar aurkeilur og eyrar úr árframburði sem er grófastur næst giljunum en verður fínni eftir því sem neðar dregur. Slík vatnsföll kallast auravötn. Mikil flóð geta komið í slíkar ár og ná þær þá að bera mjög grófan framburð langt niður eftir farveginum. Neðar eru árnar lygnari og með jafnara rennsli enda taka þær í sig fjölda þveráa. (b-c)


Set í auravötnum er nær eingöngu úr sandi og möl því fínni korn fljóta lengra niður með straumnum og setjast þar til. Slíkt set er ekki eingöngu að finna í og neðan við aurkeilur heldur einnig á jökulaurum þar sem jökulvötn hafa flætt um.

Setmyndun bugðóttra fljóta

Þar sem fljót hafa náð roffleti sínum verða þau lygn og bugðast. Straumkastið rýfur set úr bakkanum í bugðunni utanverðri en skilur eftir set í henni innanverðri. Á þennan hátt færist bugðan út og jafnframt niður eftir ánni.


Setið sem myndast á eyrinni í innanverðri bugðunni er vanalega víxl- og linsulaga sandur en við bakkann þar sem fljótið grefur sest aðeins til gróf möl.


Leir og méla berst með straumnum til ósa en í flóðum berst hún út á flæðilönd meðfram farveginum. Grófasta setið sest þá til næst farveginum þar sem straumkastið er mest en fjær nær jafnvel fínn framburður að setjast til þannig að flæðilöndin verða fremur leirborin. Eftir því sem bugðan færist til myndast setbunki sem er grófastur neðst, ofar er fínni sandur og efst fín méla. Þetta er kallað lögmál Walthers en samkvæmt því á setmyndun sem færist lárétt að leggjast yfir aðlægar eldri setmyndanir myndaðar við aðrar aðstæður. Víða eru skógi vaxin fenjasvæði meðfram bugðóttum fljótum. Safnist plöntuleifarnar saman í miklum mæli myndast mór og síðar kolalög þar sem skiptist á grófur sandsteinn, leirsteinn og kolalag.


Á breiðum sígandi sléttum getur bugðótt á farið yfir sléttuna fram og aftur margsinnis og skilið eftir sig heila setlagasyrpu. Syrpan skiptist setlagaeiningar sem leggjast hver ofan á aðra. Oft eru tiltölulega gróf korn neðst í hveri einingu en fínni korn efst. Hver setlagaeining liggur þá mislægt ofan á þeirri sem undir er en í hvert sinn sem áin fer yfir svæðið grefur hún sig niður í það lag sem fyrir var og rýfur burt efsta hlutann og jafnvel meira. Þess vegna eru slíkar setlagaeiningar sem fundist hafa í fornum setlögum oft á tíðum aðeins hlutar þeirra sem upphaflega mynduðust.