Sandrif og lón

Óshólmar mynda aðeins lítinn hluta strandlengju vegna þess að þeir myndast eingöngu við ármynni. Sandrif eru víða meðfram ströndum og hafa hlaðist hefur upp í ölduróti. Sum rif fá efni frá nærliggjandi fljóti en algengara er þó að sá sandur sem rifum fellur til hafi borist með straumum eftir hafsbotninum. Grunn lón liggja oft að baki strandrifja í góðu skjóli fyrir brimi haföldunnar. Þar sem sjávarfalla gætir lítið fellur þeim til fínt set, fínn sandur og méla. Þar sem talsverður munur er á flóði eru sjávarfallaósar víða á milli rifjanna og á fjöru skolast mélan á haf út með útfallinu. Oftast eru lónin ísölt og er seltan breytileg eftir því hvernig stendur á flóði. Óstöðug selta veldur því að mörg sjávardýr geta ekki lifað í lónum og því er þar oftast að finna tegundasnauða fánu.


Þegar sjór streymir inn í lón á flóði minnkar straumurinn snögglega þar sem sjórinn mætir vatninu sem fyrir var í lóninu og grófasta setið fellur til botns innan við ósinn. Þannig myndast óshólmar við sjávarfallaósinn með skálögun þar sem sum lögin halla til lands en önnur til hafs.


Sandurinn sem myndar sjálf rifin er oftast vel aðgreindur eftir kornastærð. Þar sem brimar við ströndina er setið skálaga og þeim hallar til sjávar. Víxllögun verður þar sem miklar breytingar eru á ströndinni vegna strauma. Sandurinn á rifjunum fýkur oft upp í öldur en þær eru þó flestar horfnar áður en lögin kaffærast og er þær því sjaldnast að finna í jarðmyndunum mynduðum við slíkar aðstæður.


Landmegin við lónin er oft að finna leirur sem koma upp úr á fjöru og ofan þeirra er merski (flæður, fitjar). Stundum myndar merskið líka mjóa ræmu landmegin við rifin. Þar sem mikill gróður vex á merskinu er oft mikil mómyndun sem með tíð og tíma getur breyst í kol.


Þegar setmyndun í lónum er hröð færast þau í átt til sjávar líkt og óshólmar. Við það færist nýmyndun setsins framar. Um leið og lónið eltir rifin færast leirurnar fram og merskið einnig. Samkvæmt lögmáli Walthers leggjast yngri setlög yfir aðlægar eldri setmyndanir sem mynduðust við aðrar aðstæður.