Landrænt umhverfi

Í fornu setbergi má greina margs konar fróðleik um myndunarhætti setsins og þannig má því draga upp mynd af því landslagi sem var á myndunartíma setsins. Takmarkið er ekki eingöngu að finna svör við spurningum varðandi útbreiðslu hafa og stöðu meginlanda á hverjum tíma heldur einnig segja til um staðbundna umhverfisþætti. Í því sambandi má t.d. nefna eyðimerkur, stöðuvötn, árdali, lón við sjó og landgrunnsbrúnir. Í flestum tilfellum geta jarðfræðingar ekki aðeins sagt til um legu dals heldur einnig hvort á rann eftir dalnum og þá hvers konar á það var. Þannig má sjá hvort um var að ræða straumstrítt fljót á áreyrum eða þroskað lygnt fljót sem bugðaðist eftir flatlendi. Einnig má oft sjá hvers kyns gróður þreifst meðfram fljótinu.


Með því að greina hinar ýmsu umhverfisaðstæður við setmyndun geta jarðfræðingar gert sér grein fyrir því lífríki sem var til staðar við setmyndunina. Þó svo að við getum lesið ýmsan fróðleik um lífverur úr steingervingum þeirra náum við ekki að gera okkur fulla grein fyrir lifnaðarháttum þeirra nema að við tökum kjörlendi þeirra inn í myndina. Í því sambandi má nefna að menn héldu lengi vel að risaeðlurnar hefðu lifað mestmegnis í vatni vegna stærðar sinnar og þyngdar líkt og flóðhestar nú. Steingervingafundir sýna hins vegar fram á annað því að steingerð bein þessara dýra er einkum að finna í landrænu seti sem ekki hefur myndast við umhverfisaðstæður í vatni.


Rannsóknir á fornum umhverfisaðstæðum geta einnig verið mjög hagnýtar því að komið hefur í ljós að ýmis verðmæt jarðefni er að finna í tengslum við vissar setmyndanir. Út frá þekkingu sinni á myndunarháttum setbergs geta jarðfræðingar oft sagt fyrir um hvar hinna ýmsu náttúruauðlinda er helst að leita. Þannig er þessu t.d. farið um kol, jarðgas og olíu. ◊. ◊. Þessi jarðefni er oft að finna í tengslum við gropinn sandstein sem myndast hefur við strendur eða meðfram fljótum og við forn kalksteinsrif sem mynduð eru af kóröllum eða lífverum sem svipar til þeirra.


Til þess að gera sér sem best grein fyrir myndun setbergs af ýmsum gerðum verða jarðfræðingar að þekkja þau ferli sem ráða myndun þeirra nú. Oft á tíðum er þetta erfiðleikum háð vegna þess hve fáar opnur eru í lögin. Reynt er að kanna lögin þar sem skurðir eða göng hafa verið grafin í þau og einnig eru setlög könnuð með því að taka úr þeim borkjarna. Með nægilega mörgum borkjörnum frá ýmsum stöðum má raunar draga upp þrívíddarmynd af setlögum hvers svæðis.