Landgrunn

Í hitabeltinu er landgrunnurinn víða eingöngu úr samlímdu kalkseti. Líkt og kóralrifin er hér um að ræða kalkmyndanir sem orðið hafa til á grunnsævi.


Á fyrri jarðsögutímum teygðu kalkmyndunin sig meðfram nær allri austurströnd Bandaríkjanna. Nú eru þau hins vegar lítt áberandi því loftslag er kaldara en það hefur verið mestan hluta jarðsögunnar. Nú myndast slíkar kalkmyndanir í höfum hitabeltisins t.d. í vestanverðu Atlantshafi við Yucatánskaga í Mexíkó. Smærri sík svæði liggja umhverfis Antillaeyjar og í suðaustur og austur af Flórída eru Litla og Stóra Bahamagrunn mynduð á þennan hátt. Þar er setmyndun afar fjölbreytileg og er því gott dæmi um slíka myndun.


Einn augljósasti eiginleiki Bahamagrunnanna er hröð setmyndun. Frá mið-júra fyrir um 170 Má hefur um 10 km setlagastafli myndast bæði á Bahamagrunninum og við Suður-Flórída sem var hluti þessarar myndunar á krítartímanum og fyrir þann tíma. Þessi mikla setmyndun á svæðinu hefur fergt jarðskorpuna og sveigt hana niður. Set sem myndaðist á grunnsævi á júratímabilinu liggur því nú á um 10 km dýpi miðað við sjávarmál. Þegar setmyndunin stöðvaðist á nokkrum stöðum á nýlífsöld mynduðust djúpir álar eins og Flórídasund auk álanna milli Stóra og Litla Bahama grunns (N.W. Providence Channel, N.E. Providence Channel og Tongue of the Ocean) og Exumasunds austantil í Stóra Bahamagrunni.


Set í nágrenni Androseyjar sem er stærst Bahamaeyja hefur að geyma margs konar gerðir kalks. Staðvindar úr norðaustri og austri mynda næringarríka hafstrauma sem mikilvægir eru fyrir kóralrif austan Androseyjar. Hlémegin og vestan við Androsey sest kalkeðja til í lygnu lóninu. ◊. Hún er einkum úr aragónítnálum sem fallið hafa til er stoðgrindur kalkþörunga liðuðust í sundur en þeir eru algengir á botni lónsins. Stór hluti þessa eðjuborna sets er límdur saman í ávalar lítið eitt aflangar kúlur líkar smásæjum spörðum. Límið er slím úr meltingarvegi orma sem nærast á því sem til fellur í botnsetinu. Sum sparðanna hafa síðan límst saman í stærri kekki á botninum. Fjöldi sýna af seti úr fornum setlögum mynduðu í slíkum lónum hefur verið rannsakaður.


Utar á svæðum sem ekki eru í vari fyrir vindum er grófara set ríkjandi. Einkum eru þar áberandi svokallaðir hrognasteinar [oolith]. Þeir myndast í iðustreymi þegar kalk fellur út úr vatninu á smá örðum í yfirmettuðum sjó. Sérhvert korn hleður utan á sig aragónítnálum um leið og það veltur til í öldurótinu á botninum og verður það því kúlulaga. Við Bahamaeyjar finnast hrognasteinar einkum meðfram brún Stóra Bahamagrunns þar sem sjávarfallastraumar eru sterkir. Þar í tæru vatninu á grunnbrúninni mynda hrognasteinar gríðarstórar sandöldur neðansjávar. Fyrir aðeins 100.000 árum þegar sjávarstaða var eilítið hærri en nú voru slíkar sandöldur meðfram strönd Flórída. Nú myndar setberg úr þessum öldum rif meðfram strönd skagans og sjást einnig í opnum á Miamisvæðinu þar sem víxllögun þeirra kemur vel í ljós.


Við vesturströnd Androseyjar sem veit út að lóninu er margskonar kalkset að myndast sem á sér víða hliðstæðu í setlagaannálum. Meðfram ströndinni er ræma af álum og fitjum sem fellur yfir á flóði. Fitjarnar eru þaktar blágrænþörungum og mangroverunnar sjást á stangli. Ofan fjörukambsins er votlendi þar sem einnig er mikið um blágrænþörunga. Víða í álunum má sjá svepplaga hrauka sem verða að mottubergi þegar þeir harna. strýtuþörungar [stromatolit]. Þeir eru úr þráðlaga blábakteríum sem mynda límkenndar mottur. Kalk sest í mottuna og vaxa þörungarnir þá í gegnum setið til að mynda nýja mottu á yfirborðinu. Þetta endurtekur sig í sífellu og myndast þannig hraukur af bakteríumottum. Stærst verða þessi knippi á grunnu söltu vatni þar sem sjávarfallastrauma gætir eins og milli Exumaeyja á austanverðum Bahamagrunni. Þar eru straumar sterkir og þrífast þar því engar lífverur sem éta sig inni í þörungamotturnar. Blábakteríurnar, sem mynda mottuberg teljast til frumstæðustu og elstu lífvera á jörðinni. Steingerðir blábakteríur finnast í 3,5 Gá gömlu bergi.