Aðstæður við jökla

Eins og gefur að skilja gefur jökulborið set ótvírætt viss loftslagsskilyrði til kynna. Þannig má fullyrða að kalt loftslag hafi ríkt þar sem ákveðnar jökulmenjar er að finna. Það eru einkum jöklar sem leggjast yfir heilu meginlöndin sem skilja eftir sig varanleg ummerki því að fjalllendi sem jöklar móta rofna niður og hverfa á löngum tíma. Nú þekja jöklar mestan hluta Grænlands og nær allt Suðurskautslandið. Þeir eru þykkastir í miðju en þynnast út til jaðranna við strendur meginlandanna. Meginlandsjöklar skilja eftir sig ummerki á láglendi sem koma til með að varðveitast í milljónir ára. Þannig hefur mönnum tekist að sýna fram á ísaldir sem gengið hafa yfir jörðina, ekki bara á nýlífsöld heldur einnig miklu fyrr á ordóvísíum og forkambríum.


Um fornar ísaldir vitna t.d. jökulrispur á ~ 300 Má gömlu bergi í Afríku. Jökulmenjar frá sömu ísöld má sjá í Suður-Ameríku, á sunnanverðum Dekan-skaga, í Ástralíu og á Suðurskautslandinu. Af þessum jökulmenjum má einnig sjá að meginlöndin lágu saman á þessum tíma og mynduðu mikið meginland á suðurpólnum en rak síðan í sundur.


Jökulmenjar eru ekki einungis fólgnar í rofi eins og jökulrispum heldur ekki síður í setmyndun. Venjulega berst mikið magn bergmylsnu fram sem botnurð undir jöklinum og kallast hún jökulurð eða jökulruðningur. Á jökulsporði skriðjökla þar sem leysing er hröð er ísinn oft þakinn urð sem smám saman hleðst upp í jökulgarð fyrir framan jökulinn. Jökulgarðarnir segja yfirleitt til um síðustu framrás jökla en dreifð jökulurðin ásamt jökulrispum segir til um útbreiðslu þeirra. Jökulárset frá jökulám er oft einnig að finna innan um jökulurðina og jökulgarðana. Slíkt set er gjarnan lagskipt, úr víxl- og linsulaga möl, sandi og jökulleir og kallast jökulaurar. Hörðnuð jökulurð kallast jökulberg.


Víða þar sem jökulvatn rennur í stöðuvötn eða lón myndast setlög með láréttri lagskiptingu þar sem skiptast á gróf og fín korn sem kallast hvarfleir. Grófu kornin bárust með jökulfljótinu að sumri til þegar það var vatnsmikið sökum leysinga en fína kornið barst að vetrinum þegar lítið rennsli var frá jöklinum.


Þar sem skriðjöklar ganga í sjó fram brotna jakar frá þeim og rekur þá burt sem borgarísjakar. Algengt er að stórir steinar úr botnurðinni hangi neðan í ísnum og berist oft langar leiðir áður en þeir falla til botns. Þessir steinar finnast hingað og þangað í fjarskyldu setbergi og kallast þá fallsteinar. Stórir steinar sem berast með jökli kallast grettistök.


Á fínum sandkornum í botnurðinni sem festast neðst í jöklinum má oft sjá ummerki jökuls. Jökulleir sem er úr afar fínkorna bergmylsnu á stærð við mélu eða jafnvel leir og finnst oft innan um jökulurð er auðþekktur frá öðrum leir á því að hann inniheldur ekki ýmsar þær leirsteindir sem myndast við veðrun og algengar eru í venjulegum leir. Í rafeindasmásjá má oft sjá brotfleti á þessum kornum sem vitna um mikil átök þegar jökullinn muldi þau undir sér.


Sjá ennfremur: malarása, drymilásar og leiðarsteina.