Gruggstraumar

Eðjustraumar eru þekktir í öskugosum hitabeltisins. Þá þéttist vatnsgufan á fínustu öskuögnunum í gosmekkinum og þau falla til jarðar. Við þetta geta orðið mikil eðjuflóð í hlíðum fjallanna. Á líkan hátt leitar gruggmettað vatn undan halla vegna þyngdarmunar. Slíkir straumar eru kallaðir gruggstraumar.


Til meiriháttar viðburða í setlagafræði telst sú uppgötvun að mikil setlög skuli hafa myndast í gruggstraumum neðansjávar. Fyrst veittu menn þessum straumum athygli í stöðuvatni þar sem vatn frá gruggugri á rann í vatnið og skreið síðan með botninum. Setið settist ekki til fyrr en gruggstraumurinn var kominn út á marflatan vatnsbotninn og hægði ferðina af þeim sökum. Hollenskur jarðfræðingur, Philip Kuenen, sýndi fram á með tilraun að gruggstraumar geta náð miklum hraða einkum og sér í lagi renni þeir niður brattar hlíðar. Grugg og vatn í gruggstraumi hagar sér sem eitt væri og getur setið hæglega tvöfaldað eðlismassa vökvans.


Þegar gruggstraumarnir koma niður á jafnsléttu úr hallanum sem þeir runnu eftir hægja þeir á sér og breiða úr sér. Setið fellur þá til botns, fyrst það grófasta og að síðustu það allra fínasta. Útkoman verður stærðarlagskipt set. Oft er grófur, illa aðgreindur sandur við botninn en leireðja efst. Slíkt stærðarlagskipt set er kallað eðjustraumaset (turbidity). Yfirborðið er oft með báruförum eftir næsta gruggstraum sem leggst ofan á.


Sú tilgáta að flestir gruggstraumar ættu upptök sín í landgrunnshlíðunum var fyrst rökstudd 20 árum eftir að eftirfarandi atburður átti sér stað. Árið 1929 slitnuðu margir sæsímastrengir í austurhlíðum Stórabanka við Nýfundnaland. Jarðskjálfti varð skömmu áður en strengirnir slitnuðu og því var setskriðum í landgrunnshlíðinni kennt um. Þegar farið var að athuga hvar í hlíðinni og hvenær strengirnir höfðu slitnað kom í ljós að þeir strengir sem lágu neðst slitnuðu mörgum mínútum seinna en þeir sem ofar lágu. Þarna var ein skriða að verki og náði hún 40 til 55 km hraða og rann samanlagt um 700 km leið niður hlíðina og út á djúpsjávarbotninn.


Gruggstraumar sem eiga upptök sín í landgrunnsbrúninni bera ekki aðeins set út á djúpsjávarbotninn heldur grafa gljúfur í hlíðarnar og hluta landgrunnsrótanna en þær eru að miklu leyti myndaðar úr slíkum gruggkeilum (eðjukeilum). Líklegt er líka að gruggstraumar hafi grafið „traðir“ sem liggja sumsstaðar út á djúpsjávarbotninn.


Set gruggstrauma myndar setlagaeiningar líkt og set lygnra bugðóttra fjóta sem einkum er úr tiltölulega hreinum sandi en líkist þó fremur grávakka. Einnig eru setlagaeiningar gruggstraumanna oftast aðeins nokkrir cm á þykkt en sambærilegar einingar í árseti iðulega nokkrir metrar á þykkt. Auk þess er víxllögun ekki til staðar í eðjuhrinum eins og í seti fljóta og ennfremur er yfirborð sets frá gruggstraumum gárótt og má sjá af gárunum hver straumstefnan var.



Sjá flyksuberg.