Tímakvarði jarðsögunnar

Jarðfræðingar 19. aldar gátu ekki gert sér grein fyrir hvernig skipting jarðsögunnar yrði og heldur ekki hvaða einkennisteingervingar eða setlagasyrpur víðsvegar á jörðinni nýttust best til þess. Þess vegna urðu ýmsir hlutar hennar smám saman til og skipulagslaust. Tímabilum töflunnar var gefið nafn um leið og þau uppgötvuðust. Oft voru nöfnin gefin eftir héruðum, fjallgörðum eða fornum þjóðflokkum sem áður lifðu viðkomandi svæði.

Skipting tímakvarðans

Eins og sjá má á töflu ◊. er tímakvarða jarðsögunnar skipt í aldabil, aldir, tímabil og tíma. Ennfremur má skipta hverjum tíma skalans niður í skeið þó svo að það sjáist ekki í töflunni.


Á íslensku jafngildir archaean upphafsöld og próterosóik frumlífsöld og til einföldunar eru bæði þessi aldabil einfaldlega kölluð forkambríum. Þýskur jarðfræðingur, Johann Lehman, prófessor í bergfræði við háskólann í Berlín lýsti bergi frá þessum myndunum þegar á miðri 18. öld og síðar eða 1833 notar sir Charles Lyell þetta hugtak þegar hann setur fram nýjan tímakvarða jarðsögunnar. Lyell og forverar hans þekktu forkambrískt berg á kristalgerð þess og hversu greinilegt mislægi greinir það frá efri og yngri bergmyndunum sem oft eru auðug af steingervingum.


Til aldabilsins fanerósóik teljast allar aldir ofan forkambríum. Þessu aldabili er síðan skipt í aldirnar fornlífsöld, miðlífsöld og nýlífsöld eftir afstæðum aldri sem byggður er á steingervingaannálum hinna ýmsu bergmyndana.


Jarðlög sem myndast á vissu tímabili eða tíma mynda jarðlagaeind (unit) sem vitnað er til sem jarðlagamyndun (system) tiltekins tímabils t.d. kambríummyndunin. Talað er um jarðlagasyrpur (series) innan hinna mismunandi tíma og stig (stage) innan skeiðs.


Hvergi á jörðinni er að finna samfelldar jarðlagasyrpur frá öllum tímum jarðsögunnar og þess vegna hafa þær nafngiftir sem hér hafa verið nefndar nýst vel til að fella hinar ýmsu myndanir inn í samfellda tímaröð tímakvarða jarðsögunnar.