Jóhannes Áskelsson

Jóhannes Áskelsson (1902-1961) lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1925, það sama ár hóf hann nám við Hafnarháskóla í náttúrufræði með jarðfræði sem sérgrein. Hann lauk aldrei námi vegna fjárskorts, en þrátt fyrir það hafði hann aflað sér góðrar þekkingar í grasafræði, dýrafræði og jarðfræði. Eftir heimkomuna hóf Jóhannes kennslu við hina ýmsu skóla og þar á meðal Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann starfaði til dauðadags. Allar frístundir Jóhannesar fóru í jarðfræðirannsóknir og þá sérlega rannsóknir á steingervingum. Hann fetaði í fótspor Helga Pjeturssonar og Guðmundar G. Bárðarsonar og skoðaði einkum steingervinga í jarðlögum mynduðum á kvarter og plíósen, og má þar nefna merkar rannsóknir á lögunum í Brimlárhöfða (Stöðin) á Snæfellsnesi.


Jóhannes hreifst mjög af Snæfellsnesi og hafði hann að mestu lokið við að gera jarðfræðilegan uppdrátt af nesinu er hann féll frá. Síðustu áratugina beindust rannsóknir hans aðallega að tertíera surtabrandsflórunni og kom hann fram með þá kenningu að íslenski surtarbrandurinn væri aðallega frá eósen (35,4-56.5 Má) ◊. en ekki míósen eins og Oswald Heer hélt fram. Þessi kenning var við líði hérlendis í nokkuð langan tíma þar til annað kom í ljós. Við aukna tækni á aldursgreiningum, samanber K/Ar, kom síðar í ljós að tertíerafánan hérlendis var af míósen aldri eins og Heer hafði haldið fram.


Árið 1934 hófst mikið gos í Grímsvötnum og jökulhlaup og fór Jóhannes nokkrar ferðir í kjölfarið. Hann birti árangur rannsókna sinna í ritinu „On The Last Eruption in Vatnajökull“ sem Vísindafélag Íslendinga gaf út árið 1936. Jóhannes var fyrstur mann til að benda á að stöðugt hitastreymi frá hverum undir íshellu Grímsvatnakvosarinnar ætti þátt í vatnssöfnun milli gosa. Einnig leiddu rannsóknir Jóhannesar á Grænalóni ýmislegt í ljós varðandi framgang jökulhlaupa.


Jóhannes kom víða við í rannsóknum sínum og eftir hann liggur fjöldi rita og greina og má þar helst nefna Quartargeologische Studien von Island (1934), Quartargeologische Studien auf Island II (1938) og Fossiliferous Zenoliths in the Móberg Formation of South Iceland (1960).