Guðmundur Kjartansson (1909-1972) lauk stúdentsprófi vorið 1929 frá Menntaskólanum í Reykjavík. Að því loknu hélt hann til Kaupmannahafnar og hóf nám í jarðfræði við Hafnarháskóla og varð hann annar í röðinn til að ljúka háskólaprófi í jarðfræði á eftir Helga Pjeturss. Er heim var komið kenndi hann jarðfræði við Háskóla Íslands ásamt stundarkennslu við Menntaskólann í Reykjavík.


Guðmundur er einna frægastur fyrir stapakenninguna þ.e. skýringar hans á myndun móbergsfjalla, en kenningu sína setti hann fyrst fram í Árnesingasögu árið 1943. Að auki kom hann fram með þá skiptingu á bergvatnsám sem allir þekkja þ.e. lindár og dragár.


Árið 1955 var Guðmundur ráðinn að Náttúrugripasafninu til að gera jarðfræðikort af landinu í mælikvarðanum 1:250.000. Fimm blöð af níu voru komin út þegar Guðmundur lést.


Eftir Guðmund liggja margar merkar greinar um Heklu og Tungnaárhraun, en hann stundaði rannsóknir á þessum svæðum um árabil. Einnig fékkst hann við rannsóknir á sjávarseti og jökulminjum frá lokum síðasta jökulskeiðs, svo sem jökulgarðinn sem liggur þvert yfir Suðurlandsundirlendið. Jökulgarðinn kenndi hann við fossinn Búða (Búðaskeiðið) og kom hann fram með þá kenningu að garðurinn hefði myndast við síðustu framrás jökulsins á síðasta jökulskeiði.


Guðmundur var um tíma formaður Hins íslenska Náttúrufræðifélags og ritstjóri Náttúrufræðingsins.