Guðmundur G. Bárðarson

Snemma hneigðist Guðmundur (1880-1933) til bóka og fróðleiks. Vorið 1897 tók hann inntökupróf í 1. bekk Menntaskólans. Hann lauk fjórða bekkjar prófi 1901, en varð að hætta frekara námi vegna veikinda. Samhliða rekstri bús í Hrútarfirði stundaði hann vísindin af miklum krafti. Þrátt fyrir að Guðmundur lyki aldrei námi viðaði hann að sér mikilli þekkingu á sviði náttúruvísinda. Hann lagði einkum stund á rannsóknir á núlifandi og steingerðum skeldýrum með tilliti til loftslagsbreytinga og sjávarstöðubreytinga við Ísland og skoðaði sérstaklega Tjörneslögin og Nákuðungslögin í Húnaflóa.


Árið 1926 flutti Guðmundur til Reykjavíkur og hóf kennslu við Menntaskólann. Hann sló hvergi af þó fluttur væri til Reykjavíkur og var einn af stofnendum Vísindafélags Íslendinga, aðalfrömuður fuglamerkinganna hjá Náttúrufræðistofnun og stofnaði ásamt Árna Friðrikssyni Náttúrufræðinginn árið 1931. Guðmundi hlotnaðist ýmsar viðurkenningar og má þar helst nefna að hann var gerður að heiðursfélaga í enska vísindafélaginu „British Association“ og hér heima hlaut hann nafnbótina „Prófessor“.


Í ritskrá Guðmundar eru 31 rit, sem gefin voru út á árunum 1902 til 1930, og má þar helst nefna Mærker efter Klima- og Niveauforandringer ved Hunafloi, Nord-Island (1910), Um surtarbrand (1918), Den Marine molluskfauna ved Vestkysten af Island (1920) og A stratigraphical Survey of the Pliocen Deposit in Tjörnes in Northern Iceland (1925). Að auki er talið að Guðmundur hafi skrifað á milli 60 og 70 greinar í Náttúrufræðinginn.