Fyrir um það bil 100.000 árum er talið að sá prímati sem við köllum mann hafi komið fram á jörðinni. Ólíkt öðrum eldri tegundum dýra spurðu þessar höfuðstóru og fingrafimu lífverur spurninga um lífið og tilveruna. Hvernig myndaðist jörðin? Hvers vegna verða eldgos? Hvað veldur jarðskjálftum? Hvað býr í hafdjúpunum?


Sérhver kynslóð hefur miðlað þeirri næstu af þekkingu sinni og sífellt tínist til í þann stóra þekkingarsarp. Forfeður okkar leituðu ókunnra landa handan hafsins og ekki leið á löngu uns maðurinn gat siglt um öll heimsins höf. Nú má segja að þekking okkar á þurrlendi jarðar sé góð en margt er okkur enn hulið í hafdjúpunum og himingeimnum.


Nú á tímum hafa jarðfræðingar margvísleg háþróuð hjálpartæki sem þeir geta beitt við rannsóknir sínar og þekkingarleit. Þrátt fyrir tölvur, massagreina og rafeindasmásjár verða þeir að beita líkri rökhugsun og náttúrufræðingar sautjándu aldar sem aðeins höfðu hamar og áttavita að vopni. Í vísindum safnast þekking stöðugt saman og við byggjum kenningar okkar á athugunum og staðhæfingum fyrirrennara okkar. Fyrir fjórum öldum varð Leonardo da Vinci (1452 - 1519) ljóst gildi steingervinga og hann skildi hversu himinhá fjöllin eru skammæ. Steingervingar vöktu einnig forvitni Roberts Hook (1635 - 1703) og hann gerði sér grein fyrir að hægt væri að byggja tímatalsfræði á þeim. Það var svo um 1669 að þrjú grundvallarhugtök voru sett fram af Nikulási Stenó.