klór: (Cl) er næstléttast halógena í VIIA flokki lotukerfisins; [chlorine].


Klórgas, Cl2, er eitrað hvarfgjarnt grængult gas [Gr. χλωρóς, chloros: fölgrænn] sem ertir slímhúð í augum og öndunarfærum. Gasið er þyngra en súrefni, nitur og koldíoxíð og myndar vökva við -34°C.


Klór myndar uþb. 0,013% jarðskorpunnar og það hefur fundist í óbundið í gosgufum en algengara er að það birtist þar sem saltsýra, HCl. (Talið er að uþb. 1 · 106 tonn af klórvetni, HCl, hafi streymt út í andrúmsloftið í Skaftáreldagosinu 1783).


Vegna þess hve auðveldlega klór binst öðrum efnum finnst það ekki frjálst í náttúrunni en er algengt í efnasamböndum eins og td. matarsalti, NaCl. Klórjónin, Cl er algengasta anjónin í höfunum.


Klórgas, Cl2, var notað sem eiturgas í fyrri heimstyrjöldinni (1914 –’18) enda veldur það köfnun ef styrkur þess er nægur. Maðurinn finnur lykt af gasinu þegar það nær 3,5 ppm styrk og við 1000 ppm er að öllum líkindum banvænn ef gasið kemst niður í löndunarfærin við innöndun.


Klór notað til að sótthreinsa drykkjarvatn, hreinsa sundlaugar, bleikja pappír og fataefni. Þessi notkun klórs byggist á stöku hvarfgjörnu súrefnisatómi sem myndast þegar klór kemst í snertingu við vatn.


Fyrst myndast blanda saltsýru, HCl, og hýpóklórsýrlings, HClO:

Cl2(g) + H2O(l)   →   HCl(aq) + HClO(aq)


Hýpóklórsýrlingur er mjög óstöðugt efni og sundrast því í saltsýru og stök súrefnisatóm:


HClO(aq) → HCl(aq) + O(g)


Súrefni á formi sameinda, O2, er ekki mjög hvarfgjarnt en stök súrefnisatóm eru hins vegar afar hvarfgjörn og eyða þau bæði litum (bleikja) og bakteríum (sótthreinsa).