flúor: (F) er hvarfgjarnast allra frumefna og léttast halógena í VIIA flokki lotukerfisins; [fluorine].


Flúorgas: (F2) er fölglut, tærandi gas og raunar hvarfgjarnast frumefna. Það tærir td. platínu sem er nánast ónæm fyrir öðrum efnum. Flúorgas hvarfast með miklum látum við vetni og mikil orka losnar við hvarfið:

H2(g) + F2(g)   →  2 HF(g) + orka

Login sem myndast við þetta efnahvarf getur orðið rúmlega 6000°C heitur. Þetta er mesti hiti sem náðst hefur við efnahvörf og jafnast á við yfirborðshita sólar.


Við hvarfið myndast vetnisflúoríð, HF(g), sem verður að flúorsýru, HF(aq), þegar það kemst í snertingu við vatn.


Flúorsýru verður að geyma á sérstökum plastflöskum vegna þess að hún leysir upp gler. Þessi eiginleiki flúorsýru nýtist til að æta gler td. í ljósaperum. Flúorsýran leysir upp kvars (SiO2) í glerinu.


SiO2(s) + 6 HF(aq)   →  H2SiF6(s) + 2 H2O(l)