Á tímabilinu 1803 til 1807 setti enski kennarinn John Dalton fram forsendur um atómið sem byggðu á fjölda athugana:

  1. Hvert frumefni er gert úr örsmáum eindum sem nefndar eru atóm.

  2. Öll atóm frumefnis eru eins en atóm mismunandi frumefna eru ólík, þau hafa mismunandi eiginleika þar með talinn mismunandi massa.

  3. Atóm breytast ekki við efnahvarf, þau hverfa hvorki né myndast við hvarfið.

  4. Efnasamband myndast þegar atóm fleiri en eins frumefnis sameinast. Í hverju efnasambandi er ákveðið hlutfall milli frumefna af hverri gerð.

Samkvæmt kenningu Daltons eru atómin grunneiningar efnisins. Þau eru minnstu eindir frumefnis sem ráða efnaeiginleikum þess. Í samræmi við kenningu Daltons er hvert frumefni gert úr einni gerð atóma en í efnasambandi eru tvær eða fleiri gerðir atóma.


Kenning Daltons skýrði nokkur einföld lögmál um samsetningu efna sem þekkt voru á þeim tíma. Eitt þeirra var lögmálið um fasta efnasamsetningu. Í ákveðnu efnasambandi er ætíð sama hlutfall á milli atóma af mismunandi gerð. Annað grundvallarlögmál er um varðveislu massans. Samanlagður massi efna varðveitist við efnahvarf sem er í samræmi við þriðju forsendu Daltons.